Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2022 voru veitt á setningu Sæluviku í dag og er það í sjöunda skipti sem verðlaunin eru afhent. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Skagafirði sem hafa með störfum sínum lagt mikið til þess að efla Skagfirskt samfélag.
Að þessu sinni bárust alls 33 tilnefningar og voru 14 aðilar tilnefndir. Það var því úr vöndu að ráða fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins að velja úr svo mörgum góðum kostum en að endingu komst nefndin að einróma niðurstöðu um að Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2022 skyldu veitt Helgu Bjarnadóttur í Varmahlíð.
Á langri ævi hefur Helga auðgað skagfirskt samfélag með margvíslegu móti þó það hafi ekki alltaf farið hátt, enda Helga lítið fyrir að hreykja sér af verkum sínum. Hún á að baki farsælan feril sem barnakennari og skólastjóri og hafði einstaklega góð og mótandi áhrif á nemendur sína. Margir þeirra halda mikilli tryggð við hana æ síðan. Hún hefur verið og er enn virk í starfi kvenfélaganna í Skagafirði, og sat meðal annars um árbil í stjórn kvenfélagssambands Skagafjarðar. Helga hefur komið að bókaútgáfu og um árabil hefur hún haft forgöngu um vinsælt félagsstarf aldraða Skagfirðinga að Löngumýri og enn heldur hún því starfi uppi af miklum krafti með vinkonum sínum. Helga er öðrum íbúum Skagafjarðar fyrirmynd hvað varðar fegrun og umgengni um umhverfi sitt. Sér þess glöggan stað bæði í heimagarði hennar og á Löngumýri. Síðast en ekki síst skal nefnt að hún hefur ætíð látið sig miklu skipta líðan og velferð þeirra sem einhverra hluta vegna standa höllum fæti í lífinu. Ófáir eru þeir sem með ýmsum hætti hafa notið manngæsku og liðsinnis Helgu í gegnum tíðina og er svo enn þó aldurinn sé byrjaður að setja mark sitt á starfsgetu hennar. Hér er fátt eitt talið af störfum Helgu fyrr og nú, í þágu samfélags okkar. Helga Bjarnadóttir er fulltrúi þeirrar kynslóðar sem ekki telur mikla þörf á að láta bera á þeim óeigingjöru sjálfboðaliðastörfum sem raunverulega skipta svo miklu máli í að skapa það góða samfélag sem við Skagfirðingar búum í.
Það er því vel við hæfi að Helga Bjarnadóttir hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og að þakka henni opinberlega fyrir öll hennar óeigingjörnu störf í gegn um tíðina.